Quantcast
Channel: Eldhússögur – Eldhússögur
Viewing all 289 articles
Browse latest View live

,,Rocky road“ brúnkur

$
0
0

,,Rocky road" brúnkurÉg veit ekki hvað það var með mig í gær en frá því að ég kom heim úr vinnunni langaði mig svo óskpalega mikið að baka mjög gómsæta köku. Því fór svo, að þegar ég tók lasagna úr ofninum á kvöldmatartímanum, fór kaka inn í heitan ofninn. Ég ákvað að baka köku sem ég hef haft augastað á lengi en uppskriftin kemur frá sænska kökukrúttinu henni Leilu. Ég reyndar breytti uppskriftinni dálítið, til dæmis minnkaði sykurinn töluvert án þess að það kæmi að sök. Kremið er afar ljúffengt og það er gefið upp að notað skuli 70% súkkulaði. Það er þó ekki öllum sem geðjast slíkt súkkulaði, það er því hægt að nota hefðbundið suðusúkkulaði í staðinn eða 56% súkkulaði. Ég notaði stóra sykurpúða sem ég klippti niður en best og fallegast er að nota mini-marshmallows. Þeir fást hins vegar á fáum stöðum, það er helst að ég hafi séð þá í Söstrene Grene. Þegar kakan var tilbúin dugði mér alveg lítill biti til þess að seðja kökulöngunina. Ég ákvað því að drífa mig með kökuna í vinnuna í morgun svo að þessi ómótstæðilega kaka myndi ekki standa bara og freista mín stöðugt! :)

IMG_7667

Uppskrift (í 26×38 cm form)

  • 350 g mjúkt smjör
  • 4.5 dl sykur
  • 3 dl kakó
  • 1 dl ljóst síróp
  • 1/2 tsk salt
  • 6 lítil eða meðalstór egg
  • 3 dl hveiti

Karamelluglassúr:

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl mjólk
  • 3/4 dl ljóst síróp
  • 300 g suðusúkkulaði eða 56%-70%, saxað

Rocky Road:

  • 1 poki Dumle karamellur (120 g), skornar eða klipptar í þrennt
  • ca. 1.5 dl pistasíur og/eða kasjúhnetur
  • ca. 2 dl salthnetur
  • nokkrir sykurpúðar klipptir niður eða mini-marshmallows

IMG_7658

Ofn stilltur á 175 gráður og stórt form (ca. 26×38 cm) smurt að innan. Smjör og sykur hrært þar til það verður létt og ljóst. Kakói, sírópi og salti bætt út í. Því næst er eggjum bætt út í, einu í senn. Að síðustu er hveitinu blandað út í. Deiginu er því næst hellt í bökunarformið og bakað í miðjum ofninum við 175 gráður í 30-35 mínútur, kakan á að vera fremur blaut í miðjunni. Þá er kakan látin kólna á meðan glassúrinn er búin til.

Rjómi, mjólk og síróp er sett saman í pott og hrært í pottinum á meðan suðan er að koma upp. Þegar suðan hefur komið upp er potturinn tekinn af hellunni og súkkulaðinu bætt út í, hrært þar til það hefur bráðnað. Þá er glassúrnum (ath. að blandan á að vera þunn) dreift jafnt yfir kökuna. Því næst eru hnetum, Dumle karamellum og sykurpúðum dreift jafnt yfir kremið. Kakan er sett í ísskáp í ca. tvo tíma eða þar til kremið hefur stífnað.

IMG_7675

Dásamlega fallega blúndustellið frá Green Gate

 


Filed under: Eftirréttir, Kökur

Súkkulaðirúlluterta með hnetu-Nizza og banönum

$
0
0

IMG_7706Nói og Siríus efndu til samkeppni um bestu uppskriftina fyrir árlega bæklinginn sinn. Ég var svo heppin að vinna annað árið í röð! :) Í fyrra vann ég með þessa uppskrift en í ár var ég með útfærslu af þessari uppskrift sem var vinningsuppskriftin. Endilega verðið ykkur úti um þennan flotta bækling, ég held að hann sé rétt ókominn í búðir. Ég fékk veglegan vinning, gjafabréf út að borða, leikhúsmiða og körfu með allskonar bökunarvörum frá Nóa og Siríus. IMG_7696  Um helgina skruppum við í sunnudagskaffi til foreldra minna og eins og svo oft áður ákvað ég að búa til eitthvað gott á kaffiborðið og eins og svo oft áður var ég á síðustu stundu – mér er bara ekki viðbjargandi með það! :) En 45 mínútum áður en ég var mætt heim til foreldra minna var ég ekki enn búin að ákveða hvað ég ætti að baka, það kom ekki að sök því kakan sem ég ákvað að baka er einstaklega fljótleg í bakstri. Ég mundi eftir girnilega hnetusmjörinu í gjafakörfunni og á mettíma varð þessi dásamlega góða kaka tilbúin! IMG_7701 Uppskrift:

  • 3 egg
  • 1,5 dl sykur
  • 50 g smjör, brætt
  • 2 msk mjólk
  • 2 msk kakó
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 5 msk hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ca. 1/2 dós Nizza hnetusmjör frá Nóa og Siríus
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir, skornir í þunnar sneiðar.

IMG_7834 IMG_7706 Ofn hitaður í 250 gráður undir/yfirhita. Egg og sykur þeytt létt og ljóst. Mjólkinni er hellt út í brædda smjörið. Kakói, kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti blandað saman. Því er svo bætt út í eggjablönduna á víxl við smjör/mjólkurblönduna. Þá er deiginu helt á ofnplötu klædda bökunarpappír og dreift úr deiginu þannig að það myndi ferning. Bakað við 250 gráður í ca. 4-5 mínútur. Um leið og kakan kemur úr ofninum er henni hvolft á bökunarpappír. Gott er að bíða í nokkrar mínútur eftir því að kakan kólni svolítið áður en Nizza kremið er borið á kökuna, annars bráðnar það. Þegar Nizza kreminu hefur verið dreift jafnt yfir kökuna og bananasneiðunum raðað yfir, er henni rúllað upp.

IMG_7708


Filed under: Kökur

Dandalakjúklingaréttur

$
0
0

IMG_6609Það eru til ótal kjúklingauppskriftir sem í er mangó chutney enda gerir mangómaukið sósuna með kjúklingnum ómótstæðilega. Ég er með þónokkrar slíkar uppskriftir á hér á síðunni og hér að neðan bætist ein afbragðsgóð í safnið. Ég skírði hana „dandalakjúklingarétt“ bara svona af því að orðið „dandala“ er svo skemmtilegt! :) Á Austfjörðum (og kannski á fleiri stöðum?) talar fólk um dandalaveður þegar það er bongóblíða. Vissulega var ekki beint dandalaveður í dag en þó, börnin voru býsna glöð yfir snjónum og léku sér úti í allan dag. Ég bakaði hins vegar smákökur og játa blygðunarlaust að ég hlustaði á nokkur jólalög með MIchael Bublé á meðan – þetta lá bara einhvern veginn í loftinu í dag og svo eru nú bara 63 dagar til jóla! :)

Dandalakjúklingaréttur f. 3

  • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri frá Rose Poultry
  • saltflögur og ferskmalaður svartur pipar
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 msk fljótandi kjúklingakraftur (eða 1 teningur)
  • 1 msk sojasósa
  • 1-2 tsk minced hot chili frá Blue Dragon eða annað chilimauk
  • 1 púrrlaukur, skorinn í sneiðar
  • 1 paprika (til dæmis rauð og/eða gul) skorin í bita
  • 1 dós 18% sýrður rjómi (180 g)
  • 3 msk mango chutney

Kjúklingurinn skorinn í bita og kryddaður með salti og pipar. Þá er hann steiktur upp úr olíu á pönnu þar til hann hefur tekið góðan lit. Því næst er sojasósu, kjúklingakrafti, chilimauki bætt út í, lok sett á pönnuna og látið malla við vægan hita í u.þ.b. 10 mínútur. Að lokum er púrrlauk, papriku, mango chutney og sýrðum rjóma bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur til viðbótar. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati.

Dandalakjúklingaréttur

 


Filed under: Kjúklingur

Bananamuffins með Dumle karamellum

$
0
0

IMG_8009IMG_7975Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að fara út að borða og hér í Reykjavík eru ákaflega margir góðir veitingastaðir – gæðin eru í raun ótrúleg miðað við okkar litla land. Það hefur komið fyrir að mér hafi verið boðið að borða á veitingastöðum gegn því að ég fjalli um það hér á síðunni, en þeim boðum hef ég alltaf hafnað. Ég vil ekki mæla með neinu nema það komi beint frá mínu eigin hjarta. Að því sögðu þá langar mig að mæla með nýjum veitingastað sem við hjónin fórum á með vinahjónum okkar um daginn. Þetta er veitingastaðurinn Restó á Rauðarárstíg (þar sem Madonna var áður). Við snæddum þar fimm rétta dásamlega góða máltíð á sanngjörnu verði. Í eftirrétt var svokölluð „ananassúpa með kókos og myntu“. Þetta er eftirréttur sem mér hefði líklega aldrei dottið í hug að panta mér að fyrra bragði en maður minn hvað hann var góður! Svo var hægt að fá vínflöskur á eðlilegu verði (á sumum veitingastöðum eru vínflöskur á fáránlega uppsprengdu verði finnst mér), staðurinn er mjög hlýlegur og kósý og síðast en ekki síst góð þjónusta. Ég er alltaf á höttunum eftir því að heyra um góða veitingastaði og langaði því einfaldlega að deila þessu með ykkur! :)

Þó það sé langt síðan ég setti inn uppskrift hingað á síðuna hef ég síður en svo verið löt í eldhúsinu. Ég tók að mér það verkefni að búa til nokkrar uppskriftir með Dumle karamellum. Það var sko ekki leiðinlegt verkefni og fjölskylda mín, sem fórnaði sér í smökkunina af lífi og sál, var heldur ekkert ósátt! :) Það er býsna skemmtilegt að lauma inn mjúkri súkkulaðihúðaðri karamellu inn í eftirrétti og kökur. Eftir að ofninn hafði verið stöðugt í gangi tvær helgar í röð þá varð þetta niðurstaðan.

dumle

Ég verð að segja að ég var býsna ánægð með allar þessar uppskriftir og hlakka til að deila þeim öllum með ykkur. Þó það sé nú bara mánudagur get ég ekki staðist að setja inn eina af uppskriftunum í dag! :) IMG_7967Sú fyrsta eru súpereinfaldar og æðislegar góðar bananamuffins með Dumle. Ég prófaði bæði með venjulegu Dumle og dökku. Flestum í dómnefndinni minni fannst ljósu karamellurnar tóna betur með bananabragðinu en þær dökku fengu líka atkvæði, þær eru líka mjög góðar – með sterkara súkkulaðibragði.

IMG_7973

Bananamuffins með Dumle karamellum (15 stk)

  • 130 g smjör
  • 2 egg
  • 150 g sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 200 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk kanill
  • 3 þroskaðir bananar, stappaðir
  • 1 poki Dumle orginal eða Dumle Dark

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjörið brætt og kælt dálítið. Egg og sykur hrært þar til blandan verður létt og ljós, þá er brædda smjörinu bætt út smátt og smátt. Vanillusykri, hveiti, lyftidufti og kanil blandað út í en þess gætt að hræra ekki lengi. Að lokum er stöppuðum banönum blandað út í deigið. Deiginu er skipt á milli 15 muffins-forma (fyllt um það bil 2/3) og einni Dumle karamellu þrýst létt ofan í deigið í hverju formi. Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 15 mínútur eða þar til kökurnar hafa tekið góðan lit. Best er að bera kökurnar fram volgar.

IMG_7991 IMG_8011

 


Filed under: Kökur Tagged: bananamúffur, bananamuffins, bananar uppskrift, bananauppskrift, kaka með dumle, muffins með banönum, muffins með dumle, uppskrift með dumle

Lambaborgarar

$
0
0

LambaborgararUm helgina kom umfjöllun á mbl.is varðandi markaðssetningu á lambakjöti og þar var sérstaklega tekið fyrir hversu hrifnir matarbloggarar virðast vera af kjúklingi á kostnað lambakjöts. Málinu til stuðnings voru uppskriftir taldar á matarbloggum og þar kom í ljós  að lambakjötsuppskriftir voru býsna fáar miðað við kjúklingauppskriftir. Ég er einn þeirra matarbloggara sem er „sek“ um að vera með fáar lambakjötsuppskriftir á síðunni minni. Í kjölfarið fór ég að hugleiða hvers vegna svo væri.

Ég er eiginlega handviss um að sú staðreynd, að hér á blogginu mínu séu kjúklingauppskriftir í meirihluta en fáar lambakjötsuppskriftir, endurspegli hversdagslegan raunveruleika margra barnafjölskyldna hér á landi. Gott lambakjöt er dýrt, kostar ca. 3-5 þúsund krónur kílóið (læri, prime, file og slíkt) – fyrir mér eru þetta kjöt sparimatur, eiginlega í flokki með nautakjöti. Aðrir ódýrar bitar sem boðið er upp á er t.d. súpukjöt og oftast annað lambaköt á beini. Mér finnst grillað eða hægeldað lambakjöt best, það er tímafrekt og tilheyrir frekar helgarmatargerðinni á mínu heimili. Þegar keypt er lambakjöt á beini þá þarf líka oft að vinna það meira (skera frá beini) eða elda það lengur, hvort tveggja er tímafrekt og tímafrek eldamennska virkar engan veginn í miðri viku fyrir venjulegar barnafjölskyldur. Stór þáttur í lambakjötsmálinu er einnig að yngstu börnunum mínum finnst lambakjöt alls ekki gott. Það er mjög algengt að börnum finnst lambakjötið of fitumikið og bragðsterkt en sem betur fer lagast þetta oftast með aldrinum. Annar stór þáttur í þessu er að í hefðbundnum matvöruverslunum er lítið úrval af góðu lambakjöti. Til þess að kaupa gott lambakjöt þarf helst að fara í kjötverslun eða matvöruverslun með kjötborði, það krefst tíma og fyrirhafnar sem fæstar fjölskyldur hafa í miðri viku.

Að þessu öllu sögðu þá býð ég að sjálfsögðu upp á gómsæta lambakjötsuppskrift í dag!

IMG_8216

Minnug þess, í öllum þessum lambakjötspælingum, að stundum hef ég getað keypt ferskt lambahakk í Þinni verslun (sem ég er svo heppin að hafa í hverfinu og þar er gott kjötborð), kom ég þar við í dag. Lánið lék við mig og ég fékk gott lambahakk úr kjötborðinu (einungis 990 kr kílóið!) og gat því búið til lambaborgarana sem eg hef hugsað um lengi. Ég notaði hamborgarapressu sem gefur 200 gramma borgara, ég mæli með slíkri græju. Þó svo að yngsta barnið hafi ekki látið plata sig til þess að borða lambakjöt þótt það hafi verið dulbúið sem hamborgrari þá ætla ég sannarlega að vera duglegri að nota lambahakkið, það er æðislega gott og ekki spillir hversu ódýrt það er. Þessir borgarar sem sagt slóu í gegn hjá öllum í fjölskyldunni nema þessari yngstu! :)

Uppskrift (5 x 200 gramma borgarar):

  • 1 kíló lambahakk
  • 120 g fetaostur (ekki í olíu heldur kubbur)
  • ca. 30 g kóríander og/eða flatblaða steinselja, saxað.
  • 1 sítróna – hýðið fínrifið
  • 2 msk ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, pressuð eða söxuð fínt
  • gott salt og ferskmalaður svartur pipar

 

IMG_8206

Fetaostur mulinn í skál. Kryddjurtum, rifnu sítrónuhýði, ólífuolíu og hvítlauki blandað saman við og kryddað með salti og pipar. Látið standa í nokkrar mínútur. Þá er blöndunni blandað saman við lambahakkið og hamborgarar mótaðir. Gott er að nota hamborgarapressu. Grillað eða steikt á pönnu við meðalhita þar til borgararnir eru hæfilega steiktir. Borið fram með salatblöðum, tómötum, rauðlauk ásamt fetaostasósu með avókadó

IMG_8211

Fetaostasósa með avókadó:

  • 1 dós sýrður rjómi (180 g)
  • 130 fetaostur (kubbur, ekki í olíu)
  • 1 þroskað avókadó
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 hvítlauksrif
  • salt og pipar

Öllu blandað saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota.IMG_8218

IMG_8224


Filed under: Hamborgarar, Lambakjöt Tagged: hamborgarar úr lambakjöti, lambaborgarar uppskrift, lambahakk, lambahakk uppskriftir, lambakjöt hamborgarar, lambakjötshamborgarar, uppskriftir úr lambahakki

Jólamolar með karamellu Pippi

$
0
0

Jólamolar með karamellu PippiSeint í gærkvöldi kom ég heim úr nokkra daga frábærri Stokkhólmsferð með elstu dótturinni og Ingu frænku. Þar sem ég bjó í borginni í 15 ár er það alltaf mjög nostalgískt fyrir mig að koma „heim“. Við fórum út að borða á góðum veitingastöðum og fórum á nýja ABBA-safnið sem mér fannst ákaflega skemmtilegt. Á laugardagskvöldinu fórum við Inga svo á söngleikinn Evitu með Charlotte Perrelli í aðalhlutverki. Við fórum líka í saumaklúbb til íslensku vinkvenna minna sem búa enn í Stokkhólmi, frábært að hitta þær allar. Að sjálfsögðu versluðum við líka svolítið og núna er ég hér um bil alveg búin að kaupa allar jólagjafirnar og búin að kaupa jólaföt á börnin. Þetta er ágætt skref í áttina til þess að vera „búin að öllu“ í góðum tíma fyrir jól – árlegt markmið sem hefur enn ekki ræst! ;)

Í Stokkhólmi var búið að skreyta allt svo fallega í miðbænum og jólalögin farin að hljóma í búðunum. Ég veit að mörgum finnst það of snemmt en mér finnst það frábært! Aðventan er svo fljót að líða að mér finnst það bara gott að byrja að njóta sem allra fyrst. Ég var að prófa mig áfram með smákökubakstur um daginn og datt niður á þessar smákökur á nokkrum sænskum matarbloggum. Ég ákvað að útfæra þær á minn hátt og prófa að nota karamellu Pipp í uppskriftina. Þetta lukkaðist svo vel að það er ekki ein einasta smákaka eftir! Það finnst mér reyndar mjög gott, ég vil að fjölskyldan njóti nýbakaðra smákaka á aðventunni í stað þess að loka þær ofan í box.

Jólamolar með karamellu Pippi

Uppskrift:

  • 120 g smjör (við stofuhita)
  • 100 g púðursykur
  • 100 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 6 msk bökunarkakó
  • 280 g hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • ¼ – ½ tsk salt
  • 200 g Pipp með karamellu
  • 150 g hvítt súkkulaði

IMG_7943

Ofn hitaður í 200 gráður við undir- og yfirhita. Smjör, sykur og púðursykur hrært saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er eggjum blandað útí, einu í senn og hrært vel á milli. Hveiti, kakói, vanillusykri, salti og lyftidufti er bætt út í smátt og smátt, þess gætt að hræra ekki of mikið. Því næst er tekið um það bil ½ msk af deiginu, því rúllað í kúlu og hún flött út í lófanum. Einn Pipp moli er settur inn í deigið og því vafið vel utan um molann. Bitunum er þá raðað á ofnklædda bökunarplötu og bakað við 200 gráður í 6-7 mínútur. Þegar kökurnar eru komnar úr ofninum er hvítt súkkulaði brætt og því dreift yfir kökurnar þegar þær eru orðnar kaldar.

IMG_7948


Filed under: Jól, Konfekt og sælgætismolar, Smákökur Tagged: góðar smákökur, jólasmákökur uppskriftir, Pipp molar, Pipp smákökur, pipp uppskrift, Pipp uppskriftir, smákökur með Pippi, smákökur uppskrift

Bananapæ með Dumle go nuts karamellusósu

$
0
0

IMG_8127IMG_8118Eitt af því besta sem ég veit er þegar banönum, karamellu og rjóma er fléttað saman í gómsætan eftirrétt. Þegar ég tók að mér að gera Dumle uppskriftirnar um daginn þá langaði mig ægilega mikið að búa til eftirrétt með einmitt þessum hráefnum. IMG_8135 Dumle go nuts molarnir eru vandræðalega góðir, mjúk karamellan, hnetur og súkkulaði sem kemur allt saman í einum mola. Ég sá það fyrir mér að það væri auðvelt og gott að gera karamellusósu úr þessari dásemd og þannig varð þetta bananapæ til á örskömmum tíma. Þetta er eftirréttur sem hægt er að útbúa á bara nokkrum mínútum, það finnst mér alltaf vera mikill kostur, en fyrst og fremst er þetta svo óskaplega gott! :) IMG_8133 Uppskrift f. 4

  • 150 g Digestive kex
  • 2 meðalstórir bananar, vel þroskaðir
  • 1 poki Dumle go nuts (175 g)
  • 2 ½  dl rjómi
  • 4 msk rjómi

IMG_8116 Kexið er mulið fremur smátt. Bananar skornir í sneiðar og 2 ½ dl af rjóma þeyttur. Dumle go nuts molarnir (3 molar skildir eftir til skrauts) eru settir í pott ásamt 4 msk af  rjóma og brætt við vægan hita. Því næst er skipt á milli 4 skála: kexmylsna í botninn, þá Dumle go nuts sósa, bananabitar, þeyttur rjómi, kexmylsna, Dumle go nuts sósa, þeyttur rjómi og loks restinni af bananabitunum stungið ofan í rjómann. Dumle go nuts molarnir þrír eru saxaðir smátt og dreift yfir til skrauts. IMG_8131 IMG_8121IMG_8122


Filed under: Eftirréttir Tagged: auðveldur eftirréttur, banana eftirréttur, banana karamellu eftirréttur, banana karamellubaka, Banana karamellupæ, banana og karamellu eftirréttur, bananabaka með karamellusósu, bananar og karamellusósa, bananauppskrift, besti eftirrétturinn, desert uppskrift, dumle eftirréttur, dumle go nuts uppskrift, dumle uppskrift, eftirréttir fyrir matarboð, eftirréttur með banönum, eftirréttur með karamellusósu, eftirréttur uppskrift, einfaldur desert, fljótlegur eftirréttur, góðir eftirréttir

Hafradraumur með súkkulaði og döðlum

$
0
0

Hafradraumur með döðlum og súkkulaði1. desember runninn upp og aðventan formlega byrjuð, dásamlegt! :) Yngsta skottið mitt var ekkert lítið ánægð með jóladagatölin sín í morgun og henni fannst punkturinn yfir i-ið snjórinn sem féll í höfuðborginni í dag. Það er kannski augljóst að hún er yngsta barnið í fjölskyldunni því í ár fékk hún bæði súkkulaðidagatal, heimtilbúið dagatal og jóladagatal fjölskyldunnar. Það síðastnefnda er afar sniðugt dagatal, en hver dagatalsgluggi sér til þess að fjölskyldan geri eitthvað skemmtilegt saman á hverjum degi fram að jólum.

Um daginn bakaði ég þessar gómsætu hafrakökur en það er satt að segja fátt sem slær út góðum hafrasmákökum. Þessar kökur eru í miklu uppáhaldi hjá eiginmanninum. Að öllu jöfnu borðar hann lítið af sætmeti en þessar kökur kláraði hann á mettíma og sagði þær vera langbestu smákökurnar! :) Varðandi stærðina þá finnst mér smákökulegra að hafa þær litlar en stærri kökurnar verða líka afar mjúkar og ljúffengar í miðjunni og það er sko ekki verra. IMG_8039

Uppskrift (ca. 70 litlar kökur eða 35 stærri)

  • 
230 g smjör, við stofuhita
  • 
200 g púðursykur
  • 
60 g sykur
  • 
2 egg
  • 
2 tsk vanillusykur
  • 
220 g hveiti
  • 
1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk salt
  • 
270 g haframjöl
  • 200 g döðlur, saxaðar smátt
  • 150 g suðusúkkulaðidropar

Ofn hitaður í 175 gráður. Sykur, púðursykur og smjör hrært saman þar til létt og ljóst. Eggjum bætt út í, einu í senn. Því næst er hveiti, vanillusykri, lyftidufti, salti, haframjöli, döðlum og suðusúkkulaði bætt út. Degið kælt í ísskáp í 1-2 tíma (það er hægt að sleppa kælingunni en þá fletjast kökurnar meira út við bökun). Mótaðar kúlur úr deginu (sem samsvara tæplega 1 matskeið að stærð fyrir minni kökurnar) og þeim raðað á ofnplötu klædda bökunarpappír.  Bakað við 175 gráður í 10-14 mínútur – bökunartími fer eftir stærð. 
IMG_8037

IMG_8033


Filed under: Jól, Smákökur Tagged: góðar smákökur, hafrasmákökur, jólasmákökur uppskriftir, smákökur með haframjöli og döðlum, smákökur uppskrift

Salthnetuterta með Dumle karamellukremi‏

$
0
0

Salthnetuterta með Dumle karamellukremi Ég verð að deila með ykkur uppskrift að svo dásamlega góðri tertu. Ég fór með hana í stórt fjölskylduboð um daginn og þar var fólk hreinlega að missa sig yfir þessar tertu. Ég er að baka hana aftur núna í kvöld og ætla að fara með hana á kökuhlaðborð í skóla barnanna á morgun. Ég er meira að segja að hugsa um að baka hana aftur fyrir aðventuboð á sunnudaginn. Ég náði nefnilega bara að smakka örlítinn bita af þessari ljúffengu tertu í boðinu um daginn og er búin að dreyma um að baka hana aftur við fyrsta tækifæri. Ég held að ég geti fullyrt að þessi tertuuppskrift sé alveg skotheld! :) IMG_8083 Uppskrift:

  • 4 eggjahvítur (lítil egg)
  •  3 dl sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 160 g Ültje salthnetur
  • 80 g Ritz kex

Dumle krem:

  • 60 g smjör
  • 1 poki dökkt Dumle (110 g) eða orginal
  • 4 eggjarauður

Ofan á kökuna:

  • 3 dl rjómi
  • 40 g Ültje salthnetur, saxaðar gróft
  • nokkrir Dumle molar, skornir eða klipptir í þrennt.

IMG_8072

Ofn hitaður í 180 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Salthnetur og Ritzkex mulið smátt í matvinnsluvél og bætt út í marengsinn með sleikju ásamt vanillusykri og lyftidufti. Deiginu er hellt í 24 cm smellu- eða silíkonform. Bakað í ofni við 180 gráður í um það bil 25-30 mínútur.

Smjör er sett í pott og brætt við meðalháan hita. Dumle molum er bætt út í og allt látið bráðna, kælt lítillega. Eggjarauður eru þeyttar ljósar og léttar og bræddu Dumleblöndunni bætt út í. Kakan er sett á kökudisk og Dumlekreminu dreift yfir kökuna. Að lokum er rjóminn þeyttur og honum dreift yfir kökuna. Skreytt með gróft söxuðum salthnetum og niðurskornum Dumle karamellum. Salthnetuterta með Dumle karamellukremiIMG_8084


Filed under: Eftirréttir, Kökur, Tertur Tagged: dumle uppskriftir, kaka með ritz kexi, kaka með salthnetum, marengsterta með karamellukremi, Marengsterta með salthnetum og ritz kexi, terta með dumle karamellukremi, terta með karamellukremi

Ris a la mande ostakaka með kirsuberjasósu

$
0
0

Ris a la mande ostakaka með hindberjasósu

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki og margt um að vera. Ofan á allt, sem uppteknar húsmæður eru að sýsla við á aðventunni, hélt ég loksins upp á afmælið hennar Jóhönnu fyrir stelpurnar í bekknum. Þetta voru orðin síðustu forvöð, barnið á afmæli snemma að hausti og nú eru að koma áramót! Ástæðan fyrir þessari frestun var að hún vildi halda upp á afmælið með bestu vinkonunni sem á afmæli í desember. Eins eru stelpurnar í árganginum (samkennsla) 28 stykki og varla framkvæmanlegt annað en að vera tvær saman ef halda á afmælið á einhverjum stað. Stelpurnar vildu hafa afmælið í Lazer tag og þá er innifalin pizza. En þær vildu að auki hafa yfirvaraskeggjaþema (!) og við mæðurnar vildum hafa þetta sem allra einfaldast. Við leituðum því á náðir Önnu konditori sem hristi fram úr erminni rosa flottri yfirvaraskeggja-tertu! :) Afar þægileg leið til að halda upp á afmælið, stelpurnar alsælar og við mæðurnar ekki síður sælar að þurfa varla að gera nokkuð.

IMG_8297

Tuttugu (2×10 ára) yfirvaraskeggja kerti í stíl! :)

IMG_8289

Diskarnir og servíettur að sjálfsögðu í stíl líka.

En að öðru, hátíðareftirréttum! Ég sá mynd um daginn frá dönsku heimasíðu Philadelphia ostsins sem ég gat ekki hætt að hugsa um. Þetta var Ris a la mande ostakaka – svo ákaflega girnileg. Ég gat ekki ímyndað mér annað en þessi blanda væri dásamlega góð. Ég elska jú bakaðar ostakökur og finnst Ris a la mande afskaplega góður eftirréttur. Að auki var í uppskriftinni bæði marsípan og hvítt súkkulaði, þetta gat nú varla klikkað. Ég ákvað að prófa að búa til þessa ljúffengu ostaköku og maður minn hvað hún er góð! :) Frábærlega skemmtilegt líka að hafa marsípan í botninum, það er eitthvað sem ég ætla að prófa á fleiri tegundum ostakaka.

IMG_8338IMG_8360

Ég gat auðvitað ekki annað en breytt aðeins uppskriftinni. Til dæmis bætti ég við kanil í kökuna. Ég veit að það er ekki hefðbundið fyrir Ris a la mande en mér finnst kanill bara svo góður og hann smellpassar við kökuna. En hún verður aðeins dekkri fyrir vikið. Eins setti ég matarlím í kirsuberjakremið en það var ekki í upprunalegu uppskriftinni. En þessi kaka er sérdeilis hátíðleg, bæði í útliti og á bragðið, og passar því einstaklega vel sem eftirréttur um jólin eða áramótin. Ekki spillir fyrir að hana er hægt að útbúa með 1-2 daga fyrirvara.

IMG_8356 IMG_8347

Uppskrift:

Botn:

  • ca. 20 Lu Digestive kex (300 g)
  • 100 g smjör
  • 140 g Odense marsípan

Ostakremið:

  • 300 g tilbúinn kaldur hrísgrjónagrautur (ég bjó hann til úr grautarhrísgrjónum)
  • 600 g Philadelphia Orginal
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 120 g möndlur án hýðis

Ofan á kökuna:

  • 1 ferna kirsuberjasósa (500 ml)
  • 2 msk portvín (má sleppa)
  • 1 msk flórsykur
  • 2 blöð matarlím
  • 100 g hvítt Toblerone (má sleppa)

Ofn stilltur á 160 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið. Sett í smurt smelluform (ca. 24 cm), gjarnan klætt bökunarpappír og blöndunni þrýst ofan í botninn. Botninn bakaður í 5 mínútur og látin kólna. Marsípanið skorið þunnt og því dreift yfir kaldan kexbotninn.

IMG_8340

Möndlur grófsaxaðar og þær þurrristaðar á pönnu þar til þær hafa fengið góðan lit og þær svo kældar. Rjómaostur og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt á milli en þó ekki mjög lengi. Hrísgrjónagrautnum smátt og smátt bætt út í og þeytt á meðan. Vanillusykri, kanil og möndlum er því næst bætt út og hrært saman við blönduna. Blöndunni hellt yfir kex/marsípan botninn og bakað við 160 gráður í 45 -50 mínútur. Gott er að slökkva þá á ofninum og leyfa kökunni að standa í ofninum í 45 mínútur í viðbót á meðan ofninn kólnar.

Matarlímsblöðin eru lögð í kalt vatn í um það bil 5 mínútur. Á meðan er kirsuberjasósan sett í pott ásamt flórsykri og portvíni og allt látið að malla í smá stund. Þegar matarlímsblöðin eru orðin mjúk er mesta vatnið kreyst úr þeim og þeim bætt út í sósuna. Potturinn er tekinn af hellinni og hrært vel þar til matarlímið hefur leyst upp. Kirsuberjasósunni er að síðustu hellt yfir kalda ostakökuna (sem er enn í forminu) og sett inn í ísskáp í minnst 6 tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Áður en kakan er borin fram er gott að saxa niður hvítt Toblerone og setja ofan á kökuna.

IMG_8380

Stellið fallega er úr Green gate frá Cup Company.

IMG_8368


Filed under: Eftirréttir, Jól Tagged: aðfangadagur eftirréttur, áramótaeftirréttur, bökuð ostakaka, desert uppskrift, eftirréttur fyrir jólin, eftirréttur uppskrift, jólaeftirréttur, ostakaka með ris a la mande, ris a la mande eftirréttur, ris a la mande uppskrift

Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaði

$
0
0

Vanilluís með marsípani og Daim súkkulaðiÉg er ekki mikið fyrir ís en þessi ís finnst mér dásamlega góður, börnin mín eru sannarlega sammála mér, sérstaklega Vilhjálmur minn sem elskar marsípan og ís – hvað þá þegar þetta tvennt kemur saman! Það er líka svo hátíðlegt að nota marsípan í ís, hann verður sannkallaður jólaís fyrir vikið! Ég nota alltaf ferskar vanillustangir í heimalagaðan ís, mér finnst það svo mikið betra en að nota vanilludropana enda eru þeir tilkomnir frá því að við höfðum ekki aðgang að ferskum vanillustöngum. Oftast er ekki einu sinni ekta vanilla í vanilludropum þannig að ég hvet ykkur til að nota vanillustangirnar. Það er ekkert mál að kljúfa þær með hníf og skafa svo fræin úr báðum helmingunum með beittum hníf. Þessi ís er fljótgerður og mér finnst hann fullkominn sem jólaís! :) IMG_8390 Uppskrift f. 6:

  • 5 dl rjómi
  • 4 eggjarauður, ég nota Brúnegg
  • 60 g sykur
  • 1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
  • 100 g Odense marsípan, skorið í litla bita (gott að skera það hálffrosið)
  • 100 g Daimkúlur (1 poki)

IMG_8393 Léttþeytið rjómann. Þeytið saman eggjarauður og sykur þar til blandan verður ljós og loftmikil. Bætið léttþeyttum rjóma, vanillufræum, marsípani og daim kúlum út í. Hellið blöndunni í ísform eða t.d. 22 cm hringlaga smelluform og frystið. Gott er að bera ísinn fram með heitri súkkulaðisósu (hér á myndinni bætti ég um enn betur og notaði Dumle go nuts sósu, þ.e. súkkulaði, karamellu og hnetur – uppskrift er að finna hér.) IMG_8429


Filed under: Ís, Eftirréttir, Jól Tagged: ís með daim, ís með marsípani, ís með marsípani og daim, besti vanilluísinn, eftirréttir fyrir jólin, einfaldur ís, heimagerður vanilluís, heimalagaður ís, Heimatilbúinn ís, heimatilbúinn ís uppskrift, jólaís uppskrift, jólaís uppskriftir, jólaeftirréttur, vanilluís með daim, vanilluís með marpsípani, vanilluís með marsípani og daim

Dumle ostakaka

$
0
0
 Dumle ostakaka
Líklega eru fleiri en ég farnir að velta fyrir sér hvað eigi að hafa í matinn á gamlárskvöld. Við verðum stór hópur heima hjá foreldrum mínum og fögnum áramótunum saman. Ég mun sjá um forréttinn og eftirréttinn. Mamma ætlar að hafa kalkúnabringur í aðalrétt þar sem meðlætið verður fengið héðan. Kalkúnabringurnar ætlum við að hægelda en ég prófaði það um daginn þegar ég var með jólasaumaklúbb. Bringurnar urðu einstaklega meyrar og góðar við slíka eldun.
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að búa til eftirrétti og hér set ég inn uppskrift að ljúffengri ostaköku sem myndi sóma sér vel á veisluborðinu á gamlárskvöld. Ég er satt að segja ofsalega ánægð með þessa ostaköku sem ég þróaði þegar ég tók að mér að gera uppskriftir úr Dumle súkkulaðihúðuðu karamellunum. Mér finnst ostakökur æðislegar og þessi fer beint á topplistann! Ég prófaði hana í matarboði um daginn og það heyrðust stunur frá fólki, það er alltaf góðs viti! :)
IMG_8106

Uppskrift:

 Botn:

 ·      200 g Lu Bastogne duo kex

·      70 g smjör, brætt

·      1 msk hunang

 Ostakaka:

 ·      400 g philiadelphia rjómaostur

·      2 egg

·      1 dós sýrður rjómi (36%) 180 g

·      ½  dl sykur

·      200 g dökkt Dumle (ca 20 molar)

·      2 msk rjómi (+ þeyttur rjómi til að bera fram með kökunni)

·      Hindber eða önnur ber til skreytingar

 Ofn hitaður í 175 gráður við undir- og yfirhita. Smjör brætt og kex mulið smátt og því blandað saman við smjörið ásamt hunanginu. Sett í smurt bökunarform með lausum botni, blöndunni þrýst ofan í botninn. Sett í kæli á meðan ostakökublandan er útbúin.

Dumle molarnir eru bræddir yfir vatnsbaði ásamt rjómanum og kælt lítillega. Rjómaostur, sýrður rjómi og sykur sett í skál og þeytt þar til að blandan verður kremkennd. Eggjum bætt við, einu í senn, þeytt vel á milli en þó ekki mjög lengi. Í lokin er bræddu Dumle bætt út í og blandað vel saman við rjómaostablönduna með sleikju. Blöndunni er því næst hellt yfir botninn og bakað við 175 gráður í um það bil 30-35 mínútur Að því loknu er kakan látin kólna og sett að síðustu inn í ísskáp í nokkra tíma, helst yfir nóttu, áður en hún er borin fram. Gjarnan skreytt með hindberjum og sigtuðum flórsykri og borin fram með þeyttum rjóma.

Fallega stellið er af tegundinni Green gate og fæst hér.

IMG_8110IMG_8115 IMG_8111


Filed under: Eftirréttir, Kökur, Tertur Tagged: bökuð ostakaka, desert fyrir matarboð, desert uppskrift, dumle uppskriftir, eftirréttir uppskriftir, eftirréttur fyrir marga, eftirréttur fyrir matarboð, einfaldur desert, góð ostakaka, góðir eftirréttir, ostakaka með dumle, ostakaka uppskrift

5 mínútna Dumle súkklaðikaka í bolla

$
0
0

IMG_8150

Gleðilegt ár kæru lesendur! Í upphafi nýs árs setjum við okkur oftar en ekki ótal markmið sem snúast um hollara mataræði, meiri hreyfingu og betri lífshætti. Með þessari uppskrift er ég sannarlega ekki leggja lóð mín á þá vogarskál, síður en svo! :) Það ríkir enn Dumle æði hér á síðunni minni eftir að ég útbjó nokkrar slíkar uppskriftir seint á síðasta ári og enn á ég eftir að birta nokkrar þeirrar. Ég sá þessa uppskrift á fleiri en einum sænskum uppskriftavef og hafði satt best að segja ekki mikla trú á því að kakan væri sérstaklega góð, þetta væri of einfalt til að vera satt. En ég hafði sannarlega rangt fyrir mér, þessi kaka er alltof góð! Svo góð að ég er núna að reyna að gleyma að ég geti á hverju kvöldi búið mér til ljúffenga köku á 5 mínútum! :)

IMG_8158

Uppskrift:

·      4 msk hveiti

·      4 msk sykur

·      3 msk kakó

·      50 g smjör, brætt

·      2 msk mjólk

·      1 egg

·      4 Dumle molar

Öllu blandað saman fyrir utan Dumle molana og deiginu skipt í tvo bolla. Dumle molarnir eru skornir í tvennt og fjórum molum þrýst ofan í deigið í hvorn bolla. Bakað í örbylgjuofni í um það bil 50 sekúndur við hæsta styrk (ath. að tíminn er misjafnt eftir ofnum). IMG_8153


Filed under: Kökur Tagged: örbylgju súkkulaðikaka, örbylgjuofnakaka, bolla súkkulaðikaka í örbylgjuofni, bollakaka, dumle uppskriftir, kaka í örbylgjuofni, súkkulaðikaka á 5 mínútum, súkkulaðikaka í örbylgjuofni, súkkulaðikaka í bolla

Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni

$
0
0

IMG_8668Síðastliðnum dögum, eiginlega vikum, hef ég eytt fyrir framan tölvuna við að finna hús á leigu í Toskana á Ítalíu. Minn elskulegi eiginmaður á stórafmæli í júní og við ákváðum að vera ekki með neina veislu af því tilefni, heldur fara með börnin okkar fjögur og tengdadóttur til Toskana og láta þar með gamlan Ítalíu-draum rætast. Það er óhætt að segja að ég taki svona skiplagningu fyrir sumarfrí af mikilli festu og alvöru. Mér finnst mjög mikilvægt að velja rétta húsið fyrir fjölskylduna og ég held að ég geti fullyrt að eftir þessa leitartörn sé ég farin að þekkja Toskana eins og handarbakið á mér og öll þau ótal hús sem þar eru í boði! :) Mér finnst „örfá“ *hóst, hóst* atriði afar mikilvæg: Að húsið hafi nægilega mörg svefnherbergi þannig að allir fái sitt eigið athvarf: Að það sé sundlaug. Að húsið sé hlýlegt að innan (sum hús í Toskana eru aðeins of „rustic“ að innan fyrir minn smekk) og með góðri aðstöðu í eldhúsinu. Að það sé góð aðstaða í garðinum með nægilega mörgum og góðum húsgögnum (nenni ekki að sitja á lélegum plaststólum eða að sólbekkirnir dugi ekki fyrir alla). Að það sé pizzu-eldofn úti, ekki skilyrði en svo sannarlega kostur. Að það sé dásamlegt útsýni frá húsinu. Að eigendurnir leggi greinilega rækt við húsið, garð og gesti sína. Það var ekki ósjaldan sem ég sá dóma gesta um hús þar sem þeir lýstu frábærum húseigendum sem færðu þeim ólífuolíu, grænmeti og ávexti úr garði sínum og jafnvel voru með kennslu í ítalskri matargerð – hljómar svo dásamlega! Síðast en ekki síst þarf allt þetta að vera á viðráðanlegu verði en leiguverð á húsum í Toskana eru ótrúlega misjöfn. Til að gera langa sögu stutta og eftir leit á netinu sem jafngildir örugglega hátt í vinnuviku þá erum við að fara að baka pizzur í þessum dásamlega eldofni í sumar:

10868226_355078474663195_398201459447046442_n

Svamla í þessari sundlaug á daginn:

c5og sitjum hér með drykk í hönd og njótum stórkostlegs útsýnis yfir Toskana á kvöldin:

483318_141976005973444_1940797105_n

Maður minn hvað það verður mikið borðað af góðum ítalskum mat og honum skolað niður með ljúffengum vínum úr nærliggjandi héruðum! :)

En að uppskrift dagsins. Ég gerði svo góðan kjúklingarétt í vikunni sem mig langar að halda til haga hér á síðunni. Í þessum rétti er bæði rjómi og feitur sýrður rjómi og ég veit að það eru margir sem forðast slíkt í matargerð, vilja nota matreiðslurjóma eða aðrar fitulitlar mjólkurvörur. Ég er hins vegar inn á sömu línu og Læknirinn í eldhúsinu. Þetta skrifar hann frábærri matreiðslubók sem kom út fyrir jólin þegar hann skýrir út af hverju hann notar smjör og rjóma í eldamennskunni: „Samband milli fitu og sjúkdóma er með öllu ósannað og meint tengsli eru úr lausu lofti gripin. Fita orsakar ekki offitu, sykursýki, háþrýsting eða hjarta- og æðasjúkdóma. Því fer meira að segja fjarri. Og mettuð fita er líka hættulaus. Þessi þráhyggja um að fita, mettuð sem ómettuð, orsaki sjúkdóma hefur sennilega þvert á móti átt stóran þátt í því að orskaka þann stórkostlega faraldur offitu og sykursýki sem nú blasir við. Með því að fjarlægja fitu úr matnum tökum við burtu það sem gefur honum góða bragðið og fyllinguna. Í stað fitunnar setjum við svo ýmislegt sem við ættum að borða sem minnst af, eins og sykur og allskonar sykurafleiður, auk ótal gerviefna sem betra væri að vera laus við!“ Amen! :)

Uppskrift:

  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja

IMG_8664

Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.

IMG_8672

 


Filed under: Kjúklingur Tagged: góður kjúklingaréttur, kjúklingapottréttur, Kjúklingaréttur, kjúklingaréttur með beikoni, kjúklingur og beikon, kjúklingur og sweet chili sósa

Brie-bökuð ýsa með pistasíum

$
0
0

IMG_8698

Það er búið að vera svo annasamt hjá mér undanfarið að ég ákvað að panta Eldum rétt í síðustu viku. Í haust leyfði ég þeim að nota nokkrar uppskriftir frá mér en að því frátöldu hef ég engum hagsmunum að gæta og pantaði bara matinn frá þeim í síðustu viku eins og hver annar. Ég vildi bara taka þetta fram því ég ætla þvílíkt að hrósa þessari dásamlegu þjónustu og frábærlega góðum mat. :) Réttirnir sem við fengum voru hver öðrum betri og ég  fékk leyfi frá þeim til að birta uppskriftirnar. Ég get ekki nógsamlega dásamað hversu þægilegt það er að fá tilbúin hráefni á þennan hátt. Að þurfa ekkert að hugsa fyrir innkaupum eða hvað eigi að hafa í matinn. Að þurfa einungis að taka fram úr ísskápnum vel merktan poka þar sem öll hráefni (brakandi fersk) eru tilbúin og það er því leikur einn, fljótlegt og hreinlegt að matreiða máltíðina. IMG_8695

Skemmtilegast er þó að prófa ný hráefni og uppskriftir sem manni hefði ekki dottið í hug að gera sjálfur. Kristín kokkur hjá Eldum rétt sannarlega rétt kona á réttum stað.  Þessi fiskréttur var sá fyrsti sem við prófuðum og það má með sanni segja að hann hafi slegið í gegn hér á heimilinu. Steinseljurótarstappan var líka svo dásamlega góð með fisknum. Ég hef aðallega ofnbakað hana hingað til en ekki notað hana í stöppu – nú verður gerð bragarbót þar á. Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér skrítið að Svíar borðuðu oft kartöflumús með fiski. Hins vegar er ég búin að komast að því að það er alls ekki svo galið, eiginlega er það ákaflega gott, sérstaklega að nota allskonar rótargrænmetastöppur með fiski. Hér er t.d. ein af mínum uppáhalds uppskriftum, það er einmitt fiskur og sætkartöflumús. En þar sem fiskurinn er mjúkur undir tönn líkt og kartöflustappan þá er gott að hafa eitthvað með sem gefur aðra áferð, í þessar uppskrift eru það pistasíu hnetur. Þetta er réttur sem ég ætla að elda fljótt aftur og hvet ykkur til þess að prófa – 5 stjörnu réttur!IMG_8697

Uppskrift f. 4:

  • 800 g ýsa (eða þorskur)
  • salt & pipar
  • 1 Bóndabrie (100 g)
  • 24 g pistasíur
  • 1 sítróna
  • 250 g steinseljurót
  • 300 g kartöflur
  • 100-140 g mjólk
  • ca. 70 g smjör
  • 170 grænar baunir
  • 100 g strengjabaunir
  • 2 tsk hungang
  • 2 tsk ólífuolía

Ofn hitaður í 190 gráður við blástur (eða 200 g við undir/yfirhita). Sjóðið 1 lítra vatni með saltklípu. Flysjið og skerið steinseljurót og kartöflur í litla bita. Sjóðið í vatninu í um það bil 10 mínútur eða þar til mjúkt. Fiskurinn er skorinn í bita og raðað í eldfast mót, saltaður og pipraður. Brie ostur skorinn í sneiðar og raðað yfir fiskinn. Pistasíur saxaðar og dreift yfir ásamt sítrónusafa úr 1/2 sítrónu. Smjörklípur settar hér og þar í formið. Bakað í ofni við 190 g blástur í um það bil 15 mínútur.

Vatninu hellt af rótargrænmetinu og það maukað saman með 100-140 ml af mjólki, smjöri og salti.  Strengjabaunir og baunir soðnar í ca. 2-3 mínútur. Hunang hrært saman við 2 tsk af olíu, smá salt og sítrónusafa. Baununum velt vel upp úr.

Berið fram með fisknum ásamt steinseljurótarmaukinu.

IMG_8700


Filed under: Fiskur Tagged: ýsa uppskrift, þorskhnakkar uppskrift, besti fiskrétturinn, fiskréttir þorskur, fiskréttur uppskrift, fiskur í ofni, fiskur uppskrift, góður fiskréttur, ofnbakaður fiskréttur, ofnbökuð ýsa

Ítölsk kjúklingasúpa með tortellini

$
0
0

IMG_8722

Þetta er uppskrift sem ég vil klárlega eiga hér í uppskriftasafninu mínu. Þessi súpa finnst mér dásamlega einföld og góð. Ég elska uppskriftir sem eru svona fljótlegar, öllu hent í einn pott og útkoman ljúffeng – allt á örstuttum tíma. Ég nota oftast ferskt tortellini, það munar ekki svo miklu í verði en mér finnst það svo mikið betra. Að þessu sinni keypti ég ferskt tortellini í Bónus fyllt með ricotta og basiliku og mér fannst það gefa súpunni afar gott bragð.

  • 700 g kjúklingalundir, skornar í bita
  • 1 gulur laukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 1 stór paprika skornar í bita
  • 1 brokkolíhaus (ca. 250 g), skorinn í bita
  • 1 msk ólífuolía
  • 1,5 l vatn
  • 3 teningar kjúklingakraftur
  • 2 msk tómatpúrra
  • salt & pipar
  • ítalskt pasta krydd (Santa Maria) og ítölskhvítlauksblanda (Pottagaldrar) eða önnur góð krydd
  • 250 g tortellini (t.d. ferskt tortellini með ricotta og basiliku)
  • 4 -6 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 30 g fersk basilika, söxuð
  • rifinn parmesan ostur (hægt að sleppa)

IMG_8724

Laukur, hvítlaukur, paprika og brokkolí léttsteikt upp úr ólífuolíu í stórum potti. Því næst er vatni, kjúklingakrafti, tómatpúrru bætt út í pottinn ásamt kryddunum. Suðan látin koma upp og kjúklingnum bætt út í. Kjúklingurinn er látinn sjóða í ca. 7 mínútur. Þá er tortellini, sólþurrkuðum tómötum og 2/3 af basilikunni bætt út og soðið eins lengi og segir til um á tortellini pakkningunni. Smakkað til með kryddunum við þörfum. Borið fram með restinni af basilikunni og rifnum parmesan osti ásamt góðu brauði.

IMG_8720


Filed under: Kjúklingur, Súpur, Súpur og grautar Tagged: auðveldur eftirréttur, auðveldur kjúklingaréttur, fljótleg kjúklingasúpa, góð kjúklingasúpa, kjúklingasúpa, kjúklingasúpa með tortellini, kjúklingur og tortellini, kjúklingur uppskrift, pasta uppskrift, pastasúpa með kjúklingi, súpa með kjúklinig og tortellini, tortellini uppskrift

Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetum

$
0
0

Panna cotta með Dumle og karamelliseruðum hnetumVið stórfjölskyldan komum oft saman við hin ýmsu tækifæri og borðum þá saman eða höldum kaffiboð. Þegar allir mæta erum við 17 manns. Oftast nær sé ég um matinn en ef að réttunum er eitthvað skipt á milli okkar þá fellur eftirrétturinn yfirleitt í mínar hendur. Mér finnst voðalega gaman að útbúa eftirrétti þar sem hver fær sina skál eða skammt, það er svo fallegt og girnilegt að bera fram þannig eftirrétti. Panna cotta er afar vinsæll eftirréttur hjá fjölskyldunni og amma veit ekkert betra! :)

Ég er nýbúin að uppgötva að sumir hafa aldrei notað matarlím og halda að það sé eitthvað flókið. En það er svo fjarri því að vera rétt, það er ekkert mál að nota matarlím og þarf engar flóknar kúnstir. Ég hef notað matarlím frá því að ég byrjaði að bralla í eldhúsinu og það hefur aldrei misheppnast – ég sver það! Þið sem hafið ekki þorað að nota matarlím hingað til, endilega prófið að gera panna cotta, þið munuð verða hissa á því hversu einfalt og fljótlegt það er! :) Ég er með margar uppskriftir að panna cotta hér á síðunni og hér að neðan bætist enn ein í safnið. Panna cotta tekur enga stund að útbúa og það er svo hentugt að geta útbúið eftirréttinn með góðum fyrirvara – tilvalið á páskaborðið! :)

IMG_8050

Dumle panna cotta f. 3

·      4 dl rjómi

·      ½ dl sykur

·      2 ½  matarlímsblöð

·      1 poki Dumle orginal (120 g)

·      1/2 dl hnetur (t.d. heslihnetur og/eða kasjúhnetur)

·      1 msk sykur (fyrir hneturnar)

·      1 tsk smjör

·      ber til skreytingar

Matarlímsblöðin eru lögð í skál með köldu vatni í minnst 5 mínútur. Rjómi og sykur sett í pott og látið ná suðu. Þá er potturinn tekinn af hellunni og Dumle molunum bætt út í pottinn. Hrært þar til þeir hafa hafa bráðnað. Því næst er vökvinn kreistur úr matarlímsblöðunum, þeim bætt út í pottinn og hrært þar til þau hafa leyst upp. Hellt í þrjár skálar eða bolla og kælt í ísskáp í minnst 2 klukkutíma. Hneturnar eru settar á pönnu ásamt sykri og smöri við meðalhita, hrært stöðugt í blöndunni. Þegar sykurinn hefur brúnast og hneturnar karamelliseras er þeim hellt á bökunarpappír og leyft að kólna. Þegar hneturnar eru orðnar kaldar eru þær saxaðar niður gróft og dreift yfir panna cotta. Skreytt með berjum að vild.

IMG_8052


Filed under: Eftirréttir Tagged: dumle eftirréttur, eftirréttir fyrir páska, eftirréttir uppskrift, eftirréttur fyrir marga, eftirréttur fyrir matarboð, eftirréttur uppskrift, góðir eftirréttir, panna cotta með dumle, panna cotta uppskrift, súkkulaði panna cotta, upsskrift panna cotta

Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi

$
0
0

Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Ég hef talað um það áður að um leið og Nói Siríus kemur með eitthvað nýtt sælgæti á markað þá endar það yfirleitt mjög fljótt í tertu eða köku hjá mér. Núna kom á markað nýtt Nóa kropp, að þessu sinni með piparmyntubragði. Hingað til hefur ekkert Nóa kropp slegið út hinu eina og sanna en ég held svei mér þá að þetta komi ansi nálægt því. Ég veit ekki hvort þið kannist við Remi piparmyntu súkkulaðikexið (ef ekki – þá mæli ég með þeim kynnum!), nýja Nóa kroppið minnir mikið á það ljúffenga kex. Ég ákvað að baka margengstertu fyrir afmæli litlu frænku minnar og nota nýja piparmyntu Nóa kroppið ásamt piparmyntu Pippi. Vissulega er þessi marengsterta engin nýjung, bara tilbrigði við þessa gömlu góðu en hún var allavega mjög vinsæl í veislunni og ég mæli sannarlega með henni. Það mætti kannski halda að þessi færsla væri styrkt af Nóa Siríus en svo er ekki … það er eiginlega öfugt, ég er öflugur styrktaraðili Nóa! ;) Marengsterta með piparmyntu Nóa kroppi og Pippi Marengs:

  • 2 dl sykur
  • 1 dl púðursykur
  • 5 eggjahvítur
  • 3 bollar Rice Krispies

Ofn hitaður í 120 gráður við blástur (ef baka á báða botnana samtímis) eða 130 gráður við undir- og yfirhita. Eggjahvítur, púðursykur og sykur er þeytt þar til marengsinn er orðinn stífur. Þá er Rice Krispies bætt varlega út í marengsinn með sleikju. Diskur eða kökuform sem er um það bil 23 cm. í þvermál er lagt á bökunarpappír og strikaður hringur eftir disknum. Þetta er gert tvisvar. Marengsinum er skipt í tvennt og hann
settur á sitt hvorn hringinn. Því næst er slétt jafnt úr marengsinum innan hringsins með sleikju eða spaða. Þá er marengsinn bakaður í 120°C (blástur) í heitum ofni í um það bil 60 mínútur. Best er að láta marengsinn kólna í ofninum.

Rjómafylling:

  • 5 dl rjómi
  • 250 g fersk jarðaber, skorin í bita
  • ca. 150 g Nóa kropp með piparmyntu
  • 50 g Pipp með piparmyntu, skorið smátt

Rjóminn er þeyttur og jarðaberjunum ásamt Nóa kroppi og Pippi er blandað út í rjómann. Rjómablandan er svo sett á milli marengsbotnanna þegar þeir eru orðnir kaldir.

Pipp krem: 

  • 5 eggjarauður
  • 5 msk flórsykur
  • 150 g Pipp með piparmyntu
  • 100 g suðusúkkulaði

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel saman. Pipp og suðursúkkulaði er brotið niður í skál og brætt yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðiblandan er of þykk er hægt að bæta örlítilli mjólk eða rjóma út í. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað og kólnað örlítið er þvi bætt varlega út í eggjarauðu- og flórsykurblönduna. Kreminu er því næst dreift yfir marengstertuna. Skreytt með berjum, t.d. jarðaberjum, bláberjum, hindberjum, rifsberjum og blæjuberjum. Tertan er geymd í ísskáp og er líka góð daginn eftir. IMG_8843 IMG_8846


Filed under: Kökur, Tertur Tagged: góð marengsterta, marengsterta með nóa kroppi, marengsterta með rice krispies, marengsterta nóa kropp, marengsterta uppskrift

Sítrónubaka með marengs

$
0
0

Sítrónubaka með marengsMér finnst hinar ýmsu bökur (pæ) algjört hnossgæti og þar trónir eplabaka á toppnum. Mér finnst hins vegar líka allskonar sítrus eftirréttir góðir og ekki síst sítrusbökur. Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum hér á Eldhússögum er einmitt að slíkri böku, Key lime bökunni frægu, hér er linkur á þá uppskrift. Undanfarnar vikur hefur fylgt mér löngun á að gæða mér á ferskri sítrónuböku með marengs, ég veit ekki hvers vegna. Kannski er það vegna þess að Ítalíuferðin okkar alveg að bresta á og einhvern veginn finnst mér sítrónupæ minna mig á Ítalíu, ætli það séu ekki sítrónurnar, ég held til dæmis að flestir sem hafa komið til Ítalíu hafi smakkað á ítalska sítrónulíkjörnum, limonchello. Í gær var matarboð hjá foreldrum mínum og mér fannst upplagt að gera fjölskylduna að tilraunakanínum þegar ég prófaði mig áfram með sítrónubökuna í eftirrétt. Ég ákvað tvöfalda sítrónusultuna (lemon curd) og einnig þeytti ég fleiri eggjahvítur en þurfti fyrir bökuna. Þannig gat ég á einfaldan og fljótlegan hátt líka búið til Pavlovu með sítrónusultu, rjóma og berjum. Ólíkir eftirréttir en þó mikið til með sömu hráefnin. 11328799_10152962203577993_1632395666_n Mér fannst sítrónubakan ofboðslega góð, þetta fullkomna hlutfall milli þess sæta og súra gerir sítrónuböku að himneskum eftirrétti í mínum bókum. Ég held að fjölskyldan hafi verið sammála mér þó kannski ekki öll börnin, bakan er meira svona „fullorðins“eftirréttur. Það lítur kannski út fyrir að vera erfitt að búa þennan eftirrétt til en svo er alls ekki. Það þarf til dæmis ekki að sprauta marengsinum á bökuna, það er líka hægt að dreifa bara úr honum með sleikju. Bökuformið mitt er mjög stórt, 30 cm, ég ætla að gefa upp minni uppskrift sem passar í form sem eru ca. 24 cm, sem er algengari stærð.

Uppskrift (í ca. 24-26 cm bökurform):   Botn:

  • 3 dl hveiti
  • 130 g smjör (kalt)
  • 3-4 msk kalt vatn

Sítrónusulta (lemon curd):

  • 2 dl sykur
  • 4 dl vatn
  • 2-3 sítrónur (fer eftir stærð og styrkleika)
  • 1 dl maísenamjöl
  • 4 eggjarauður
  • 20 g smjör

Marengs:

  • 4 eggjahvítur
  • 1.5 dl sykur

IMG_8896 Botn: Ofn hitaður í 150 gráður við undir- og yfirhita. 24-26 cm bökuform smurt að innan. Hveiti, smjör og vatn (gæti þurft meira vatn en gefið er upp) er hnoðað saman í deig. Best er að gera það í höndunum og þá er gott að skera smjörið niður í litla bita og eins er gott að mynda holu í hveitið fyrir vatnið. Þegar deigið er orðið að góðum klumpi er því þrýst ofan í bökuform (deigið þarf ekki að hvíla áður). Fallegt er að láta deigið ná upp á kantana á forminu. Þá er notaður gaffall til að stinga götum á botninn hér og þar. Bakað í ofni við 150 gráður í 15 mínútur.

Á meðan er sítrónusultan útbúin: Sítrónurnar er þvegnar vel og því næst er safinn pressaður úr þeim. Sítrónuhýðið er þá rifið niður með fínu rifjárni, gætið þess að nota bara gula hlutann af hýðinu. Vatn, sykur og 2/3 hlutar af sítrónusafanum er sett í pott ásamt maísenamjöli og suðan látin koma upp, hrært í stöðugt á meðan. Blandan er smökkuð til og restinni af  sítrónusafanum er bætt út í eftir smekk. Þegar blandan er orðin hæfileg þykk er potturinn tekin af hellunni og blöndunni leyft að kólna dálítið. Því næst er eggjarauðum, rifna sítrónuhýðinu og smjöri bætt út í og suðan aftur látin koma upp, hrært í á meðan. Blöndunni er að lokum helt ofan á kaldan bökubotninn.

Marengs: eggjahvíturnar stífþeyttar og sykrinum bætt út í smátt og smátt. Marengsinum er dreift yfir sítrónusultuna, annað hvort með spaða eða sprautað með sprautupoka. Að lokum er bakan sett inn í ofn við 175 gráður í 8-10 mínútur. Í lokin er fallegt að stilla ofninn á grill og leyfa marengsinum að brúnast passlega. Nauðsynlegt er þó að fylgjast stöðugt með bökunni þar sem marengsinn brúnast hratt. Vel er hægt að gera bökuna daginn áður en hún er borin fram og geyma hana í kæli. Gott er að bera bökuna fram með þeyttum rjóma eða vanilluís. IMG_8903 11311859_10152962204277993_1860247481_n


Filed under: Bökur, Eftirréttir Tagged: desert uppskrift, eftirréttur fyrir marga, eftirréttur fyrir matarboð, eftirréttur með sítrónum, sítrónu marengs baka, sítrónubaka, sítrónubaka með marengs, sítrónupæ, sítrónupæ með marengs

Ítölsk brauðterta

$
0
0

IMG_0083

Það er vel við hæfi að setja inn uppskrift að ítalskri brauðtertu eftir dásamlega Ítalíuferð fjölskyldunnar. Vissulega eru Ítalir ekkert sérstaklega mikið að búa til brauðtertur held ég en hráefnin í þessari brauðtertu eru samt innblásinn af Ítalíu. Það var afar skemmtilegt að elda í Toskana og nýta góðu hráefnin sem héraðið hafði upp á að bjóða, grænmetið, ávextina, kryddjurtirnar og svo ekki sé talað um ferska pastað þeirra sem á nákvæmlega ekkert skylt við þurrkaða pastað sem við þekkjum hér heima. Uppistaðan í fæðunni okkar á meðan Ítalíudvölinni stóð var parmaskinka, melónur, mozzarella, tómatar, basilika, ólífuolía, brauð, pasta og parmesanostur – ásamt rauðvíni auðvitað, ekki slæmt það! :)

11407268_10152976388282993_39985861688175300_n

Það er alveg magnað hvað hægt er að gera góða matrétti úr einföldum hráefnum svo fremi sem þau eru fersk og góð. Úr þessum hráefnum varð til einstaklega góður pastaréttur.

villa-in-poppi-tuscany-2

Mér leiddist ekkert í eldhúsinu með ferskt grænmeti af markaðnum! ;)

11391789_10152976389402993_8725255834746546953_n

Húsráðendur okkar voru frábærir og einn daginn fengum við til dæmis þessar heimalöguðu sultur frá þeim, það kallaði auðvitað á osta, kex og vín. Við höfum varla drukkið annað en Chianti vín í sumar, en þau eru frá Toskana. Í húsinu sem við leigðum var vínkjallari með miklu úrvali af Chianti vínum á afar góðu verði. Það var sama hvaða tegund við völdum, hver einasta flaska var eðalgóð!

11377390_10152972110087993_9213144157852679933_n

Útsýnið frá húsinu okkar var eiginlega óraunverulegt, svo magnað var það.

villa-in-poppi-tuscany

Þetta var uppáhaldsstaðurinn hans Elfars, enda var útsýnið þaðan ekki slæmt!

10476459_10152972108392993_8441051171073755090_n

Þessi mynd er tekin frá hengirólunni, hér sést yfir gamla bæinn Poppi og Poppi kastalann.

villa-in-poppi-tuscany-1

Sundlaugin okkar var frábær og miðdegissnarlið ekki síðra! :)

11350499_10152972109132993_8804694172672177064_n

Ég mæli heilshugar með húsinu Podere la Casina í Toskana, hér eru bókunarupplýsingar. En ef ég vík aftur að uppskriftinni sem mig langaði að halda til haga hér á síðunni. Mér finnst alltaf gott að geta gripið til allskonar brauðrétta fyrir veislur og þessi brauðterta er alveg tilvalin á veisluborðið, hún er fljótleg og afar bragðgóð.

IMG_0082 Uppskrift:

  • Brauðtertubrauð skorið á lengdina (fæst frosið, notið 5 lengjur af 7)

Fylling 1:

  • 30 g basilika, blöðin söxuð smátt (nokkur blöð geymd fyrir skreytingu)
  • ca. 8 st. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir smátt
  • 250 g Mascarpone ostur
  • ca 1/2 dós (90g) 10% eða 18% sýrður rjómi
  • salt & pipar
  • hnífsoddur af cayenne pipar

Fylling 2:

  • 1 Stóri Dímon ostur (250 g), maukaður
  • 1 dós 10% eða 18% sýrður rjómi (180g)
  • salt & pipar

Ofan á brauðið

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • ca 8 sneiðar parmaskinka
  • ca 8 sneiðar góð ítölsk pylsa
  • 12 – 14 kirsuberjatómatar
  • ca 15-20 svartar ólífur
  • nokkur basiliku blöð
  • einnig fallegt að skreyta brauðtertuna með t.d. klettasalati, ferskum timjankvistum og/eða mismunandi tegundum af baunaspírum
  • 11749739_10153054364637993_931005220_n

Brauðtertubrauðið sem kemur frosið er losað í sundur og látið þiðna. Á meðan er hráefnunum blandað saman fyrir fyllingarnar tvær og þær smakkaðar til með kryddi. Hvorri fyllingu fyrir sig smurt á tvær brauðlengjur og þær lagðar saman sitt á hvað, fimmta brauðlengjan er því næst lögð efst. Þá er brauðtertan smurð á alla kanta með 36% sýrðum rjóma. Að lokum er brauðtertan skreytt með parmaskinku, ítalskri pylsu, ólífum, kirsuberjatómötum, basilku og t.d. klettasalati, baunaspírum eða timjankvistum.

IMG_0079 IMG_0090


Filed under: Brauð og brauðréttir, Smáréttir Tagged: auðveld brauðterta, brauðréttur, brauðterta, brauðterta með parmaskinku, brauðtertubrauð, kaldur brauðréttur, saumaklúbbsréttur, uppskrift að brauðtertu
Viewing all 289 articles
Browse latest View live